top of page
Search

Santorini


 

Þegar við vorum að plana ferðina þá hugsuðum við alltaf að við vildum bara fara í dagsferð til Santorini. Það var léttast að gera það á meðan við vorum þá á eyju sem er nálægt. Á endanum ákváðum við að það væri best að taka þessa dagsferð á meðan við vorum á eyjunni Ios, sem urðu svo mikil mistök þar sem að sú eyja endaði á að vera uppáhalds eyjan okkar og þegar við horfum óskum við að við hefðum verið lengur á þeirri eyju.


Við pöntuðum bátsferð með go-ferry.com yfir til Santorini og bókuðum við hraðbát í þetta skiptið, sem var aðeins dýrara, en með hraðbáti er þetta bara hálftíma sigling og þá myndum við fá meiri tíma til að skoða okkur um á þessum svakalega instagram-væna stað.


Við mættum til eyjunnar frægu um hádegisbil eftir góða bátsferð og við tók hræðileg rútuferð upp mjög bratta og þrönga fjallshlíð. Rútan tók okkur að höfuðborg eyjarinnar, Thira, og þar löbbuðum við um og fengum okkur að borða. Við gerðum samt þau mistök að eyða aðeins of miklum tíma þar og rétt misstum af rútunni sem við ætluðum að taka í bæinn Oía. Við sáum fram á að ef við tækjum næstu rútu sem kæmi eftir klukkutíma þá myndum við hafa kannski 20 mínútur til að skoða einn fallegasta stað heims. Okkur fannst það aðeins of lítill tími og sáum að þetta er bara 20 mínútna keyrsla þannig að við leigðum okkur fjórhjól og ákváðum bara að keyra þangað sjálf og vera svo komin til baka í tíma til að ná rútunni niður að höfninni aftur og þá ná bátnum okkar aftur yfir til Ios.

 
 

Við fundum lítið fyrirtæki sem leigði út fjórhjól, skrifuðum undir alls konar samninga og biðum svo eftir hjólinu. Við biðum og biðum og biðum en hjólið kom aldrei. Þangað til hálftíma seinna kom það og við, orðin smá tæp á tíma, brunuðum til Oía, Santorini. Til að bæta gráu ofan á svart þá fylgdist Breki því miður ekki nógu vel þegar honum var kennt á hjólið þannig að hann endaði á að ýta á eina takkann sem mátti alls ekki ýta á og við enduðum föst á bensínstöð í aðrar 15-20 mínútur. Því var reddað af góðhjörtuðum starfsmanni bensínstöðvarinnar sem talaði ekki stakt orð í ensku og við komumst loks leiðar okkar.


Á meðan Breki keyrði fjórhjólið og ég sat aftan á hrædd um líf mitt róaði ég mig við tilhugsunina um hvað það hefði verið næs ef við hefðum ákveðið að vera bara á Santorini í nokkra daga. Þarna í sveitasælunni voru lítil hvít hús með sundlaugum sem ég seinna meir sá að hægt var að leigja.


Þegar við komumst loksins á leiðarenda var útsýnið vissulega magnað. Það verður nú samt að viðurkennast að maður fékk örlitla niðursveiflu. Internetið er búið að byggja þennan magnaða stað upp í hausnum á manni og maður var einhvernveginn með aðeins of háar væntingar. Sérstaklega eftir hvað það var mikið vesen hjá okkur að komast þangað, biðin með fjórhjólið og að missa af rútunni. Manni fannst einhvernveginn ekki þess virði að hafa lagt svona mikið á sig til að labba um í alveg eins litlum grískum bæjum og maður var búinn að vera í síðustu vikuna... Svo má líka nefna það að það var varla hægt að fóta sig til þarna vegna fjölda fólks. Algjör ferðamannastappa..

 
 

Þetta var samt sem áður alveg einstök upplifun og Oía Santorini alveg magnaður staður. Við löbbuðum um, tókum fallegar myndir og borðuðum mjög góðan kvöldmat þarna með sturluðu útsýni.

 
 

Eftir matinn brunuðum við til baka niður að höfuðborginni og rétt svo náðum rútunni niður að höfn. Við vorum með þær væntingar að geta nýtt síðasta kvöldið á uppáhalds eyjunni okkar Ios í skemmtilegheit en eitthvað voru þeir draumar síðar meir brotnir. Þegar við erum í rútunni fæ ég sms um að það yrði smá töf á brottför bátsins, bara um klukkutíma eða svo. Báturinn átti upprunalega að fara klukkan 8 og það var nú lítið mál að bíða, við settumst niður á höfninni og biðum bara róleg. Svo var klukkan orðin 9 en enginn bátur kominn. Svo var klukkan 10, og svo 11 en aldrei kom neinn bátur.. Við vorum orðin ansi þreytt, svöng og pirruð á þessum tímapunkti, það var ein pínkulítil sjoppa á staðnum sem seldi bara snakk og nammi og maður var ekki alveg í stuði fyrir það... Á endanum kom báturinn loksins á miðnætti, 4 tímum of seinn. Við komumst aftur til Ios kl hálf 2 um nóttina og þar sem það eru einungis 5 leigubílar á allri eyjunni vorum við ekki vongóð um að finna einn slíkan til að skutla okkur aftur upp á hótel. Við enduðum því á að labba frá höfninni upp á hótel, sem vildi svo heppilega til að var staðsett efst uppi í brattri brekku. Við vorum komin aftur á hótelið kl 2 um nótt, dauðþreytt og pirruð eftir daginn. Við áttum svo bát yfir á næstu eyju snemma daginn eftir og því ekki mikill svefn tekinn þá nóttina.


Ef það er eitthvað sem ég sé eftir þá er það það að hafa ákveðið að taka dagsferð til Santorini. Ef ég væri að plana ferðina núna myndi ég alltaf mæla með að taka 2-3 daga á eyjunni og gista í þessum krúttlegu litlu hvítu sveitahúsum. Vera þar í ró og næði, með sundlaug og sveitasæluna í bakgarðinum og vera með fjórhjól á leigu til að komast til Oía, út í búð og fleira.


Takk fyrir lesturinn <3



18 views0 comments

Recent Posts

See All

Commentaires


bottom of page