top of page
Search

Falin perla í Tékklandi!

Updated: Apr 18, 2020


 

 

Við dagskrárgerð ferðalagsins var ég mikið að leita á netinu því við vildum ná að skoða allt það sem hvert land hafði upp á að bjóða, prófa eitthvað nýtt. Við vorum löngu búin að ákveða að við ætluðum til Prague í Tékklandi en við vildum líka sjá Tékkland utan höfuðborgarinnar. Ég skoðaði endalaust af ferðabloggum um Tékkland og það var alltaf eitt nafn sem kom fyrir á hverjum lista, Karlovy Vary. Við skoðuðum þetta eitthvað og ákváðum að slá til. Planið fyrir Tékkland var þá orðið heilsteypt en við ætluðum að eyða þremur dögum í höfuðborginni og á leiðinni til Salzburg ætluðum við að gista eina nótt í þessum litla smábæ að nafni Karlovy Vary.


Þann 17. júní eyddum við svo þjóðhátíðardeginum í heldur betur ævintýralegri lestarferð frá Prague til Karlovy Vary! Við byrjuðum daginn á því að missa af fyrstu lestinni sem seinna meir voru helmingi meiri mistök en við gerðum okkur grein fyrir..

Við biðum í tvo tíma eftir næstu lest, komum okkur svo bara þæginlega fyrir og nutum útsýnisins um fallega Tékkland. Eftir 4 tíma ferðalag talar lestarstjórinn í hátalarann, bara á tékknesku auðvitað og við skildum ekkert. Næsta sem við vitum er að allir labba út. Við vitum EKKERT hvað er í gangi en við vissum það að við vorum ekki nálægt þeim stað sem við áttum að enda á. Eftir að ein góðhjörtuð kona sá hvað við vorum týnd á svipinn kom hún upp að okkur og sagði að lestin hefði bilað og allir eigi að fara út eins og skot. Við tók klukkutíma bið á minnsta brautarpalli Tékklands, bókstaflega út í sveit, í 30 gráðu hita, haldandi á öllu dótinu okkar með fólki sem talaði varla ensku, úff..

Að lokum byrjuðu allir að labba niður stigana rétt hjá. Við spurðum yndislegu konuna hvernig maður kæmist til Karlovy Vary og til allra lukku var hún líka á leiðinni þangað og við fengum að elta hana í næstu lest. Þegar loksins var komið á leiðarenda og við erum að stíga út úr lestinni þá brotnar handfangið á stóru töskunni okkar og til að bæta gráu ofan á svart, þá fann leigubílstjórinn okkar ekki Airbnb íbúðina okkar og ég endaði á því að draga 20 kílóa töskuna ca. hálfan kílómeter (eða mér leið eins og það væri hálfur kílómeter) upp bröttustu brekku bæjarins!

 
 

Við mættum fimm tímum of seint til bæjarins Karlovy Vary sem er lítill smábær austarlega í Tékklandi. Við byrjuðum að skoða okkur um og VÁ þetta var einn fallegasti bær sem ég hef nokkurn tímann séð! Bærinn er byggður við á sem liggur í gegnum miðju bæjarins. Sitthvoru megin við ána eru tvær fjallshlíðar og er byggt alveg upp þær (útskýrir þessa sjúku brekku sem ég þurfti að draga brotnu töskuna upp). En þrátt fyrir mikið ferðavesen var þetta svoo worth it!

 
 

Bærinn er þekktastur fyrir að vera spa bær en þegar maður labbaði þar í gegn voru dekur- og nuddstofur á hverju einasta horni. Það sem var líka á hverju einasta horni voru þessir litlu skrýtnu vatnsbrunnar og við tókum eftir því að allir sem voru að fá sér vatn úr þeim héldu á mjög furðulegum bollum sem við höfðum séð áður því þeir eru seldir í hverri einustu túristabúð sem var á svæðinu. Eftir leit á veraldarvefnum komumst við að því að í kringum bæinn eru litlir hverir með heitu vatni sem innihalda mikil og góð steinefni. Vatnið sem kemur úr þessum litlu vatnsbrunnum er því talið hafa lækningamátt, það var bara heitt og vont á bragðið to be honest en skemmtileg lífsreynsla!

 
 

Þar sem við vorum algjörlega ástfangin af þessum bæ og misstum mikinn tíma í honum út af lestarferðinni miklu þá ákváðum við að gista óvænt eina nótt í viðbót í þessum litla fallega bæ.


Þetta er svo algjörlega staður til að koma í frí og slaka á þar sem andrúmsloftið er svo svakalega rólegt þarna og spa á hverju einasta horni. Ég ætla 150% þangað aftur í lífinu og ég er bara eiginlega búin að ákveða að ég ætla að draga vinkonur mínar þangað í spa- og freyðivínshelgi þegar við erum allar komnar á fimmtugsaldur. Þessi bær er algjörlega faldna perla Tékklands!


Takk fyrir að lesa <3





27 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page