top of page
Search

Eyjahopp í Grikklandi


 

Við plönun ferðalagsins völdum við okkur fimm mjög fallegar eyjar til að fara á, allar eyjar voru með mjög mismunandi vibe-i. Eins og áður fórum við að skoða á Airbnb til að finna gististað en það var allt annað hvort sjúklega dýrt eða mjög langt frá miðbæ eyjarinnar. Á endanum notuðum við booking.com til að fá gistingu en þar voru langbestu verðin fyrir gististað á þessum tíma árs. Við notuðumst við go-ferry.com til að finna og panta bátsferðir milli eyjanna.


Við lentum í Aþenu með flugi frá Albaníu 12. júlí og eyddum fjórum dögum þar. Við áttum svo miða í bát yfir til Mykonos morguninn 16. júlí. Við áttuðum okkur seinna meir á því að ég hef verið eitthvað út úr því þegar við keyptum þessa miða þar sem að ég pantaði óvart bát sem fór ekki frá aðalhöfninni í Aþenu heldur úr höfn sem var í 40 mínútna keyrslufjarlægð.. En við tókum bara á því og vöknuðum þarna eldsnemma morguninn 16. júlí til að taka dýrustu taxaferð ferðarinnar. Það gekk nú allt vel á endanum og við komumst til fyrstu eyjarinnar í þessu ævintýri.

 

1. Mykonos


Eins og þið hafið kannski heyrt er Mykonos langt frá því að vera ódýrasti staður í heiminum en virkilega worth it að fara á allavegana 1x á lífsleiðinni, sérstaklega þegar maður er ungur. Mykonos einkennist af dagdrykkju við sundlaugina á daginn og djammi á kvöldin, það er bara þannig. Þetta er mikil djammeyja þannig ef þú ert fyrir það þá er þetta 100% eyja fyrir þig til að fara á!


Það er mjög dýrt að taka Airbnb á leigu eða vera á hóteli þarna, sérstaklega yfir sumartímann. Ef þið eruð að fara mörg saman í ferð og eigið fyrir því þá eru geggjuð hús sem hægt er að leigja á Airbnb ef maður leitar vel og bókar vel fram í tímann, en þau eru flest í smá fjarlægð frá miðbænum. Við ákváðum að við vildum vera í nálægt miðbænum og fundum geggjað hostel sem var ein besta ákvörðun sem við tókum varðandi ferðina. Á hostelinu var sundlaug með klikkuðu útsýni yfir miðbæinn og þar var hægt var að slaka á yfir daginn. Við sundlaugina var líka bar með mjög skemmtilegum barþjónum. Við kynnust mikið af skemmtilegu fólki sem voru að gista á hostelinu, allt fólk á ungum aldri og það var ótrúlega gaman! Gistingin fyrir 3 nætur á hostelinu kostaði okkur 50.000 krónur saman, sem er reyndar mjög dýrt fyrir hostel en þetta var það ódýrasta sem við fundum og endaði á að vera geggjuð upplifun.

 
 

Þeir 3 dagar sem við eyddum á eyjunni voru æðislegir. Miðbærinn er fullur af skemmtilegum klúbbum, góðum veitingastöðum og krúttlegum grískum búðum. Fyrir þá sem vilja kíkja út fyrir miðbæinn þá eru endalaust mikið af ströndum allan hringinn í kringum eyjuna, margar hverjar sem bjóða upp á strönd á daginn og klúbb á kvöldin. Það er rúta sem gengur að helstu strandarklúbbunum á hálftíma fresti eða svo.

 
 

Ef þú ert ekki mikið fyrir djammið eða er bara hreinlega of þunnur til að fara á djammið eitt kvöldið (eins og við), þá tókum við því mjög rólega og fórum í bíó! Á Mykonos er eitt flottasta útibíó sem ég hef á ævinni séð. Þú horfir á mynd uppi á stórum skjá undir stjörnubjörtum himninum, með bjór og popp í hönd, og ekki skemmir fyrir að það er líka veitingastaður í bíóinu, real definition á dinner and a movie.

 
 

2. Paros


Eftir þriggja daga djammferð á Mykonos var svooo gott að komast til Paros. Paros er by far rólegasta eyjan sem við heimsóttum. Miðbærinn er lítill og rólegur og göngutúr í gegnum þann bæ gerði mikið fyrir andlega og líkamlega heilsu.. Við gistum 2 nætur á hóteli rétt fyrir utan miðbæinn. Staðsetningin á hótelinu var geggjuð en það var stutt að labba í miðbæinn en ef maður horfði í hina áttina sá maður ekkert nema grísku sveitina. Frábær staður til að koma og slaka á eftir þrjá erfiða daga, eða þannig..

 
 

Það er samt mikið hægt að gera og ég mæli sjúklega með að leigja ykkur buggy og keyra hringinn í kringum eyjuna! Við gerðum það og stoppuðum á geggjuðum veitingastað í brunch og smá sólbað.

 
 

Besta við þennan stað verður samt að vera svalirnar sem við vorum með á hótelinu okkar. Við vorum með svalir sem hefðu alveg eins geta verið teknar út úr Mamma Mia, enda eyddum við báðum kvöldum þar að njóta í spilakvöldi og bjór.

 
 

3. Ios


Ef það er eitthvað sem ég sé eftir við skipulag ferðarinnar þá er það það að hafa ekki verið lengur á Ios. Þetta er fullkomin blanda af Mykonos og Paros, eitthvað fyrir alla! Það er svo margt hægt að gera þarna, ef þú vilt slaka á, fara í fjallgöngu, djamma eða hvað sem það er, Ios er með það.


Það er svo sorglegt hvað við vanmátum eyjuna en við þurftum samt að ná að sjá hina frægu eyju Santorini. Þannig var staðan að við vildum taka dagsferð til Santorini og í planinu leit það vel út að taka þá ferð meðan við vorum á Ios þar sem það er bara hálftíma hraðbátur á milli. Það enduðu á að vera mikil mistök en ég segi frá því í annarri færslu ;)


Þar sem við gistum bara tvær nætur á Ios og vorum bara í einn dag höfðum við lítinn tíma að gera allt það geggjaða sem eyjan hefur upp á að bjóða. Við gistum á geggjuðu hóteli með sjúku útsýni yfir höfnina. Hótelið bauð upp á að sækja mann í bátinn þegar maður kom og gaf okkur mjög góð tips um hvað á að gera á eyjunni. Við byrjuðum fyrsta daginn á að koma okkur vel fyrir og slaka á við sundlaugina.


Um kvöldið fórum við svo á local veitingastað sem hótelið mælti með og eftir það löbbuðum við á klúbb sem var rétt hjá. Konan á hótelinu hafði sagt okkur frá honum og við ákvaðum að prófa. Sagan er sem sagt sú að einu sinni kom bandarískur milljónamæringur að heimsækja þessa fallegu eyju og varð algjörlega ástfanginn af henni. Þessi maður dældi þvílíkum peningum í að byggja klúbba og strendur á eyjunni sem varð til þess að næturlífið á eyjunni blómstraði til muna. Þessi klúbbur sem við fórum á var einn af þeim klúbbum. Við mættum þarna um 8 leitið að kvöldi til og vorum heldur betur sjokkeruð við útsýnið. Þetta var eins og risastórt sundlaugarsvæði ívofið djammi. Þarna voru sundlaugar og barir út um allt og svakalegt útsýni yfir sjóinn. Stemmningin var eins og venjulegt sundlaugarpartý með tónlist í takt við það en þegar kvöldaði og sólin tók setjast fór af stað svakaleg athöfn. Það þögnuðu allir og óperusöngur settur í hátalarakerfið sem var tímasettur að klárast um leið og sólin hvarf í sjóinn. Maður sat þarna með eitt ótrúlegasta útsýni yfir sólsetur sem maður hefur orðið vitni af með von í hjarta vegna tónlistarinnar sem var spiluð. Um leið og sólin settist samt var maður dreginn niður á jörðina með krafti og djammtónlistin byrjaði aftur. Upp úr 11 leitið fór fólk að týnast út af klúbbnum og allir drifu sig út í rútu sem fór með mann á næsta stað, miðbær Ios.

 
 

Miðbærinn er staðsettur lengst upp í fjallshlíðinni og var heldur betur skemmtilegt mannlíf þar um nóttina. Við enduðum inn á bar sem bauð aðeins upp á silent disco og ég er ekki að grínast þegar ég segi að þetta kvöld var skemmtilegasta kvöld ferðarinnar.

 
 

Það er svo margt annað sem okkur langaði að gera en höfðum því miður ekki tímann til. Til dæmis var mjög hátt talað um einn strandklúbb sem var þarna í 20 mínútna fjarlægð frá okkur sem heitir “Far Out Beach Club” og við hefðum verið svo til að geta kíkt á. Ég get með sanni sagt að ég ætla að koma aftur á þessa eyju og upplifa allt það sem ég náði ekki að gera einhverntímann seinna.

 

4. Milos


Milos er virkilega falleg eyja með smá svona sveita-vibes. Hún er mun stærri en hinar eyjarnar sem við höfðum heimsótt og þess vegna var mælt með fyrir okkur að við myndum leigja bíl meðan við værum þar, og ég myndi 100% mæla með því líka! Við gistum á gistiheimili sem var staðsett fyrir miðju á eyjunni. Fyrsta daginn keyrðum við um eyjuna og fórum á Sarakiniko Beach sem er algjörlega einstök strönd en umgjörð strandarinnar eru hvítir klettar sem myndast hafa í náttúrunni. Degi tvö var svo eitt á annarri strönd í algjörri slökun.

 
 

Síðasta deginum á Milos var svo eytt í að skoða fallega staði á eyjunni. Við byrjuðum í litlu og litríku fiskiþorpi sem heitir Klima. Það var ekki hægt að keyra alveg að því þannig við tókum labbið sem var virkilega þess virði því þetta er með fallegri stöðum sem ég hef farið á! Lítið og krúttlegt fiskiþorp með litríkustu húsunum!

 
 

Næst fórum við í annað lítið fiskiþorp sem heitir Mandrakia. Við stoppuðum þar í hádegismat og nutum þess að vera í svona sjúklega fallegu umhverfi.

 
 

Því næst heimsóttum við Papafragas Cave og löbbuðum þar upp á klett og náðum svakalegu útsýni yfir gamla sjóræningjahella.

 
 

5. Krít


Við enduðum þetta eyjahopp á Krít en frá Milos tókum við bát til höfuðborgarinnar Heraklion. Í Heraklion leigðum við bíl, keyrðum í vestur og næsta stopp var bærinn Rethymno.


Við vorum á klikkuðu hóteli í Rethymno og fórum lítið út fyrir sundlaugarbakkann ef ég á að vera hreinskilin.. Við skoðuðum nú samt bæinn að kvöldi til og þar var að finna alls konar góða veitingastaði og bari en allt mjög fjölskylduvænt. Þetta er vissulega bær þar sem gott var að koma til að slaka á.

 
 

Eftir mikla og góða slökun var förinni haldið austur til Hersonissos. Þar var mun meira næturlíf og skemmtum við okkur konunglega, eða allavegana fyrsta kvöldið. Við skemmtum okkur vissulega konunglega seinna kvöldið líka, eða þangað til að ég fattaði að peningaveskinu mínu hafði verið stolið með ökuskírteininu mínu og öllum debit og kredit kortum mínum.. Ég tjékkaði á bankareikninginn minn og einhver hafði allavegana skemmt sér þetta kvöld við að splæsa á drykki með mínu korti! Það var nú lítið hægt að gera í því og við eyddum síðasta deginum í Grikklandi á lögreglustöðinni að fylla út skýrslur..

 
 

Takk fyrir lesturinn <3


27 views1 comment

Recent Posts

See All

1 Comment


Áslaug Melax
Apr 20, 2020

Frábær síða hjá þér Lára og meiriháttar að fá innsýn í ferðalagið ykkar. Þú gerir þetta svo lifandi að manni finnst maður hafa verið með ykkur. Flottar myndir. <3

Like
bottom of page